Header

Hvítabandið hefur verið starfrækt í 130 ár og hélt upp á þessi tímamót 2 apríl 2025, en félagið var stofnað 17. apríl 1895 og hefur starfað óslitið síðan. Á hátíðarfundinum var veittur styrkur í Menntunarsjóð Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur að upphæð 1,3 milljónir króna, það er 10.000 kr. fyrir hvert starfsár.

Hvítabandið hefur frá upphafi helgað sig mannúðar- og líknarmálum. Stærsta einstaka verkefni félagsins er án efa bygging Sjúkrahúss Hvítabandsins við Skólavörðustíg sem félagið reisti á eigin kostnað og starfrækti í tæpan áratug.

Saga Hvítabandsins varpar ljósi á óformlegar valdaleiðir kvenna. Formæður okkar höfðu áhrifavald sem skipti sköpum í þróun velferðarmála á Íslandi og endurspeglar saga líknarfélaga þessi völd kvenna. Þeim tókst að hrinda í framkvæmd ýmsum mannúðar- og velferðarmálum sem eru í höndum hins opinbera í dag. Barátta formæðra okkar fyrir betra lífi endurspeglast í starfi félagsins. Saga Hvítabandsins sem sögð er í bókinni „Aldarspor“ leiðir í ljós framlag kvenna í mótun heilbrigðis- og félagsmála á Íslandi.

 

 

Hér er erindi Dagmars Sigurðardóttur sem hún flutti á afmælisfundi félagsins:

Fundarstjóri, formaður, kæru Hvítabandsfélagar og aðrir gestir.

Það er mér sönn ánægja að fá að flytja hér nokkkur orð í dag enda segir maður nú heldur ekki nei við systur sína en báðar þekkjum við vel Hvítabandið þegar við í barnæsku fylgdumst með föðurömmu okkar sem var mjög virk í Hvítabandinu og reyndar einnig í Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur. Við vorum ekki háar í loftinu þegar okkar fyrstu kynni af fjáröflun var við sölu á mæðrablóminu, fyrst var manni treyst fyrir 5 blómum, síðan 10 og jókst svo jafnt og þétt. Horfðum á eftir ömmu á fund hjá Hvítabandinu í sparifötum, nýlagt hárið og fundurinn haldinn á Hótel Sögu, flottara varð þetta ekki. Komumst svo auðvitað að því síðar meir að það voru ekki allir fundir haldnir á Sögu en svona er nú barnsminningin.

Það var hinn 17. apríl 1895 sem Hvítabandið var stofnað og var helsti hvatamaður að stofnun þess Ólafía Jóhannsdóttir. Félagið gerðist aðili að Kristilegu alheims bindindisfélagi kvenna á stofnári sínu, fyrst íslenskra kvenfélaga til að gerast aðili að alþjóðlegum samtökum. Á þessum árum vann Hvítabandið og þá sérstaklega Ólöf mikið með Góðtemplarareglunni. Í málflutningi sínum tengdi Ólafía saman baráttuna fyrir kosningarétti kvenna og bindindismálin og árið 1896 hélt Indriði Einarsson, góðtemplari því fram að eitt megintakmark Hvítabandsins ætti að vera almennur kosningaréttur kvenna, þá fyrst væri bindindismálinu borgið. Á stórstúkuþingi árið 1907 var samþykkt að skora á Alþingi að veita konum kosningarétt og kjörgengi til jafns við karla og því má með sanni segja að Hvítabandsfélagar geta verið stoltir af að hafa átt þátt í þeirri þróun sem varð.
Félagið var stofnað sem bindindisfélag en hefur frá upphafi helgað sig mannúðar- og líknarmálum sem eru aðaláherslurnar í dag þó félagið gleymi ekki uppruna sínum og styðji dyggilega við bindindismál. Hvítabandið lét sig varða heilsuvernd og forvarnir og varð fyrst til að sinna heilsuvernd barna á aldrinum þriggja til sjö ára í Reykjavík. Það rak ljósastofu í tæpa tvo áratugi en á þeim tíma var lítið um ávexti og grænmeti og því mikilvægt að koma í veg fyrir beinkröm hjá börnum.

Félagið studdi einnig á margvíslegan hátt við bágstaddar fjölskyldur, bæði með matargjöfum og fatnaði á börnin. Þegar síðan Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur var stofnuð 1928 var Hvítabandið eitt af stofnfélögum og hélt þannig áfram þessum stuðningi. Stærsta einstaka verkefni félagsins er án efa bygging Sjúkrahúss Hvítabandsins við Skólavörðustíg sem félagið reisti á eigin kostnað og starfrækti í tæpan áratug en það var vígt 18. febrúar 1934.   Félaginu hefur verið umhugað um að varðveita þátt Hvítbandsins í tilurð hússins og rekstri þess og lét Reykjavíkurborg útbúa skjöld sem festur er utan á húsið. Það voru því gleðileg tíðindi þegar fréttir bárust í liðnum mánuði að Reykjavíkurborg hefði hafnað því að rífa húsið niður eins og núverandi eigendur hugðust gera enda mikil saga og menning sem fylgir húsinu.
Margar leiðir hafa verið farnar við fjáröflun og t.d. í byrjun voru það fyrirlestrar og ýmsar skemmtanir sem félagið stóð fyrir. Hélt félagið m.a. almenna dansleiki og sáu félagskonur um veitingar á þessum uppákomum sem rann í sjóði félagsins. Merkjasala, hlutavelta og tombóla voru líka notuð til fjáröflunar og einnig voru konur duglegar að sauma, prjóna og baka sem síðan var selt á basar. Einnig rak félagið um nokkurt skeið verslanir í þjónustuíbúðakjörnum í Reykjavík. Félagið studdi dyggilega við Dyngjuna sem var áfangaheimili fyrir konur sem voru að fóta sig í lífinu eftir að hafa verið í meðferð vegna vímuefna. Þegar Dyngjan var opnuð 1987 voru rúmin í húsinu búin sængum, koddum og rúmfatnaði frá Hvítabandinu sem félagskonur saumuðu sjálfar. Minningarkort hafa verið seld á vegum félagsins og rennur allur ágóði af þeim í sérstakan minningarsjóð.

Hér hefur sagan verið rakin í fáeinum orðum en í tilefni af 100 ára afmæli félagsins árið 1995 var gefin út bókin Aldarspor sem Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur ritaði. Bókin er listilega vel skrifuð þar sem saga félagsins er ýtarlega rakin í máli og myndum. Einkunnarorð félagsins „Fyrir Guð, heimilið og þjóðina“ lýsir starfsemi félagsins einna best og er rauði þráðurinn í öllu starfinu.

Eins og rakið er hér á undan hefur Hvítabandið látið sig mörg mál varða. Þannig var félagið eitt af þeim félögum sem ákváðu að stofna Kvenfélagasamband Íslands fyrir 95 árum og er eitt af stofnfélögum þess.
Félög innan Kvenfélagasambandsins hafa í gegnum árin tekið höndum saman um mörg þjóðþrifamál og er einkar ánægjulegt að sjá hversu vel starf allra félaganna hafa skilað miklu til samfélagsins. Allt starf innan sambandsins er unnið undir gildunum sem félögin ákváðu á landsþingi 2018 sem eru: Kærleikur-samvinna-virðing. Kom það m.a. bersýnilega í ljós á landsþinginu í fyrra á Ísafirði hversu vel konur náðu að vinna vel saman, báru virðingu fyrir skoðunum hvor annarra og ekki má gleyma gleðinni en allt þetta sveif yfir þinginu og skapaði einstaka stemmingu. Saga Hvítabandsins eins og annarra félaga innan okkar raða varpar ljósi á óformlegar valdaleiðir kvenna. Formæður okkar höfðu áhrifavald sem skipti sköpum í þróun velferðarmála á Íslandi og endurspeglar sagan þessi völd kvenna. Þeim var ljóst að samtakamáttur kvenna væri sterkt afl og tókst að hrinda í framkvæmd ýmsum mannúðar- og velferðarmálum sem eru í höndum hins opinbera í dag. Barátta formæðra okkar fyrir betra lífi endurspeglast í starfi félaganna og leiðir í ljós framlag kvenna í mótun heilbrigðis- og félagsmála á Íslandi.

Nú á kvennaárinu 2025 er mikið um að vera, stórafmæli aðildarfélaganna, þátttaka okkar í viðburðum í tilefni af kvennaárinu og verkefnið sem kom frá landsþingu: Vika einmannaleikans svo nóg er um að vera.
Stjórn Kvenfélagasambands Íslands árnar Hvítabandinu allra heilla í tilefni af afmælinu en félagið er eitt af mörgum félögum sambandsins um land allt, það elsta var stofnað í júlí 1869 og það yngsta 2019 og eru því 150 ár á milli þess elsta og yngsta.

Ég óska Hvítabandinu og okkur öllum til hamingju með afmælið, megi
vegur félagsins vaxa og dafna um ókomin ár.

 

 

Í apríl nk. eru 130 ár liðin frá stofnun Hvítabandsins, líknarfélags.IMG_8088
Af því tilefni heldur félagið hátíðarfund að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, Reykjavík, miðvikudaginn 2. apríl 2025 kl. 17:00 – 19:00.

Tilkynna þarf þátttöku í síðasta lagi 28. mars nk á netfangið: hvitabandid@gmail.com

Stjórnin

Ný stjórn hefur tekið við eftir aðalfund Hvítabandsins sem haldin var á Hallveigarstöðum þann 5. mars s.l.

Nýr formaður er Sigríður Unnur Sigurðardóttir
Nýr ritari er Ingibjörg Þóra Ólafsdóttir
Áframhaldandi gjaldkeri er Oddfríður Steinunn Helgadóttir

Hægt er að hafa samband við stjórnina í gegnum tölvupóst: hvitabandid@gmail.com

Jólafundur 4. desember 2024

November 30th, 2024 | Posted by admin in Uncategorized - (0 Comments)

Kæru Hvítabandsfélagar,

Jólafundur okkar verður haldinn að Hallveigastöðum miðvikudaginn 4. desember kl. 18:30

Hugvekju flytur okkur séra Elínborg Sturludóttirdownload
Jólasögu les Oddfríður Helgadóttir
Við njótum tónlistar Þorbjargar Gróu og Valmundar Rósmars
Veitingar verða í umsjá Ingibjargar Þóru Ólafsdóttur, Margrétar Albertsdóttur og Sigríðar Unnar Sigurðardóttur

Ath. kl. 18:30

Munið að tilkynna þátttöku.

Fyrir Guð heimilið og þjóðina

Frá nóvemberfundi á Hótel Holt

November 30th, 2024 | Posted by admin in Uncategorized - (0 Comments)

IMG_8090IMG_8089IMG_8088

Dagskrá vetrarins 2024-2025

September 29th, 2024 | Posted by admin in Uncategorized - (0 Comments)

Kæru Hvítabandsfélagar,

Við vonum að þið hafið átt ánægjulegt sumar, með sól og sumaryl í hjarta, að minnsta kosti. Fundir vetrarins verða eins og vanalega haldnir fyrsta miðvikudag mánaðarins að Hallveigarstöðum, kl 18:30, nema annað sé tekið fram.

 

Dagskrá vetrarins er:

2. október 2024

6. nóvember 2024

4. desember 2024 – Jólafundur

5. febrúar 2025

5. mars 2025- Aðalfundur

2. apríl 2025

Vorferð verður farin í maí 2025; dagsetning og nánari upplýsingar verða auglýst síðar.

 

Dagskrá októberfundar:

  • Almenn fundarstörf
  • Hugvekja Kristrúnar Ólafsdóttur
  • Aðalerindi kemur frá Sveindísi Önnu Jóhannsdóttur, félagsráðgjafa.

Veitingar eru í umsjá Sigríðar Unnar og Dagmarar Elínar Sigurðardætra og Ragnhildar Jónasdóttur. Boðið verður upp á kjúklingasúpu og rjómatertu.

 

Með bestu kveðju,

Fyrir Guð, heimilið og þjóðina,

Stjórnin

Vorferð 2024

April 30th, 2024 | Posted by admin in Uncategorized - (0 Comments)

Gleðilegt sumar kæru Hvítabandsfélagar.

Vorferð okkar verður miðvikudaginn 8. maí n.k.IMG_4401-1284x630

Dagskrá:
Við hittumst við Kópavogskirkju kl. 16:30 þar sem séra Sigurður Arnarson segir okkur frá verkum Gerðar Helgadóttur í kirkjunni.
Á eftir leggjum við leið okkar í Krónikuna sem er veitingastaður í Gerðarsafni þar sem við njótum veitinga og fögnum sumri.

Vinsamlega látið vita um þátttöku. Ef þörf er á akstri látið þá vita.

Fyrir Guð heimilið og þjóðina

Kveðja
Þorbjörg

Nóvemberfundur 2023

October 31st, 2023 | Posted by admin in Uncategorized - (0 Comments)

Nóvemberfundur Hvítabandsins verður miðvikudaginn þann 1. nóvember kl. 18:30 að Hallveigarstöðum.

Dagskrá fundar:
Hugvekja: Oddfríður Helgadóttir
Erindi: Rakel Adolphsdóttir, forstöðukona Kvennasögusafns Íslands
Ljóð: Lydía Kristóbertsdóttir

Veitingar í umsjá Ástríðar Thoroddsen og Margrétar Albertsdóttur.

Fyrir Guð, heimilið og þjóðina.

Dagskrá vetrar 2022-2023

November 3rd, 2022 | Posted by admin in Uncategorized - (0 Comments)

Fundardagar vetrarins 2022-2023

    Miðvikudaginn 5. október 2022 kl. 16:00 ATH breyttan tíma

    Miðvikudaginn 2. nóvember 2022 kl. 18:30

    Miðvikudaginn 7. desember 2022 kl. 18:30

    Miðvikudaginn 1. febrúar 2023 kl. 18:30

    Miðvikudaginn 1. mars 2023 kl. 18:30 Aðalfundur

    Föstudaginn 5. apríl 2023 kl. 18:30

    Stefnt er að vorferð í byrjun maí. Nánari dagsetning auglýst síðar.