Header

Hvítabandið gefur 1,2 milljónir til bágstaddra fjölskyldna

June 1st, 2015 | Posted by admin in Uncategorized

2015-04-17 15.48.03-6Hvítabandið hefur verið starfrækt í 120 ár og hélt upp á þessi tímamót á afmælisdeginum en félagið var stofnað 17. apríl 1895 og hefur starfað óslitið síðan. Á hátíðarfundi var veittur styrkur til bágstaddra barnafjölskyldna að upphæð 1,2 milljónir króna, 1.000 kr. fyrir hvert starfsár og 1 fjölskylda fyrir hvern áratug sem Hvítabandið hefur verið starfrækt og fá því 12 fjölskyldur hver um sig 100.000 kr. í formi gjafakorta. Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, sem Hvítabandið er aðili að, var falið að koma gjöfunum áleiðis í hendur þeirra þar sem þörfin er mest með áherslu á barnafjölskyldur.

Hvítabandið hefur frá upphafi helgað sig mannúðar- og líknarmálum. Stærsta einstaka verkefni félagsins er án efa bygging Sjúkrahúss Hvítabandsins við Skólavörðustíg sem félagið reisti á eigin kostnað og starfrækti í tæpan áratug. Upphaflega átti það að verða hvíldar- og hressingarheimili fyrir konur að aflokinni spítalavist en vegna mikils skorts á sjúkrarúmum í Reykjavík var því breytt í sjúkrahús og var fyrsta almenna sjúkrahúsið sem yfirvöld í höfuðstaðnum ráku en Hvítabandið gaf Reykjavíkurborg húsið með öllum áhöldum og innanstokksmunum.

Saga Hvítabandsins varpar ljósi á óformlegar valdaleiðir kvenna. Formæður okkar höfðu áhrifavald sem skipti sköpum í þróun velferðarmála á Íslandi og endurspeglar saga líknarfélaga þessi völd kvenna. Þeim tókst að hrinda í framkvæmd ýmsum mannúðar- og velferðarmálum sem eru í höndum hins opinbera í dag. Barátta formæðra okkar fyrir betra lífi endurspeglast í starfi félagsins. Saga Hvítabandsins sem sögð er í bókinni „Aldarspor“ leiðir í ljós framlag kvenna í mótun heilbrigðis- og félagsmála á Íslandi.

You can follow any responses to this entry through the RSS 2.0 Responses are currently closed, but you can trackback.