Saga Hvítabandsins
Hvítabandið var stofnað 17. apríl 1895 og hét þá fyrst Bindindisfélag kvenna. Var Ólafía Jóhannsdóttir aðalhvatamaður að stofnun þess en Hvítabandið er næst elsta kvenfélagið í Reykjavík. Félagið gerðist aðili að Kristilegu alheims bindindisfélagi kvenna á stofnári sínu og er nafni þess var breytt í The White Ribbon, tók félagið hér upp nafnið Hvítabandið.
Það voru um 18 konur sem voru stofnfélagar en þeim fjölgaði ört og urðu 50 um sumarið 1895. Í dag er svipaður fjöldi í Hvítabandinu og það er opið bæði konum og körlum og er einn karlmaður í félaginu.
Frá upphafi hefur Hvítabandið helgað sig mannúðar- og líknarmálum. Einkunnarorð félagsins eru: “Fyrir Guð, heimilið og þjóðina.”
Sjúkrahús Hvítabandsins við Skólavörðustíg sem félagið reisti á eigin kostnað og starfrækti í tæpan áratug var vígt 18. febrúar 1934 og voru sjúkrarúmin 38. Sjúkrahúsið var fyrst rekið sem sjálfseignarstofnun en síðar var Reykjavíkurborg afhent eignin að gjöf með öllum áhöldum og innanstokksmunum. Hefur félagið alla tíð haft sterka tengingu við sjúkrahúsið og látið sig starfið þar varða. Í dag er þar rekin göngudeild geðdeildar frá Landsspítalanum fyrir fólk með átröskun.
Í tilefni af 100 ára afmæli félagsins árið 1995 var gefin út bókin Aldarspor sem Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur ritaði fyrir félagið og er þar rakin saga félagsins í máli og myndum.
Hvítabandið er eitt af stofnfélögum Bandalags kvenna í Reykjavík en það var stofnað 30. maí 1917